Thursday, December 13, 2007

Ein að missa sig í fyndni...

er að verða vitlaus. Ég nenni aldrei að opna svona skemmtipósta og forward frá fólki þar sem ég á að svara einhverju um eitthvað. Svo sendi systa mér álfadansinn og ég dó.

Sat til tvo í nótt að föndra álfa og mér finnst þetta endalaust fyndið.

Jólajólastuð!!
Þetta eru sem sagt pörupiltarnir í jólastuði!!

http://www.elfyourself.com/?id=1344302383


Ps. Fór á Láp og Skráp og jólaskapið í Skemmtihúsinu, jólaleikrit sem sýnt er kl. 18.00 fyrir börn og fullorðna og það er svo skemmtilegt. Mæli með því að fólk fari og taki krílin eða bara skemmtilegt að fara sjálf. Miðasala í skemmtihúsinu frá 17 alla daga. Bara láta vita því þetta var svo gaman.

Fór með Guðmund Inga og Einar Arnar, sem var nýkominn af leikskólanum svo ég varð að skipta á honum...og frænkan ekki með bleyju þannig við skelltum einu dömubindi á barnið, hann alsæll lofaði að láta vita og svona.. soldið erfitt samt þegar maður er bara 2ja ára og talar ekki mikið af sér, hann kann sko ekkert mikið að tala en skilur allt.. svo við skelltum okkur í leikhúsið í götunni, nema hvað þá var bara jólaball í fullum gangi niðri, eitthvert fyrirtæki búið að kaupa sýninguna en það er náttúrulega ekki hægt að fara ekki í leikhúsið þegar búið er að lofa krílunum og maður kominn á staðinn og fullt af börnum í fínum jólafötum og jólatré og jólasveinn og kona í rauðum kjól að syngja jólalög og allir að fara að sjá leikritið uppi. Guðmundur Ingi er svo auðveldlega ástfanginn að hann var dolfallin yfir söngkonunni og spurði.. Hvað heitir hún!!.

Nei ekki hægt að fara þá bara heim, þannig við bara gerðumst boðflennur í jólapartýi hjá einhverju fyrirtæki, fengum nammi og horfðum á leikritið í stígvélum með leikskólaskítinn og dömubindi innan um öll fallegu jólabörnin. Maður á náttúrulega ekki að segja frá þessu... Það var meira segja ekkert pisssað í sig fyrr en leikritið var búið, og þá vorum við hvort eð er að fara heim í bað!! Hann er að verða alvanur leikhúsáhorfandi hann litli 2ja ára.
En það var rosalega gaman og svo borguðum við bara eftir á, krílin alsæl, og ég líka. Lápur og Skrápur komu okkur svo sannarlega í jólaskap, vona að pörupiltar komi ykkur í jólaskap!!!





ok jólarokkk!!!

Thursday, December 6, 2007

I´m back!!!




Skvísuferðin til Glasgow var alveg rosalega skemmtileg... nú skil ég hvað er átt við með húsmæðraorlofi, það er nú bara nauðsynlegt fyrir ungar konur, já konur bara á öllum aldri að fara í svona stelpuferð. Og borða góðan mat, versla smá, gráta smá og hlæja mikið. Það er nú bara þannig. Takk fyrir mig kæru vinkonur!

Eitt sem ég mæli með er að fara á mother india Cafe að borða. Besti indverski matur í heimi. já það er nú bara þannig líka. Þá t.d. var ég næstum því farin að gráta, af því maturinn var svo góður. eins og kæró segir við mig.. you´d go with anyone that feeds you.. en hann fattar ekki að það á líka við um skoska hreiminn, ég sver það!!! Ég var næstum því flutt inn með strætóbílstjóranum sem keyrði okkur Ágústu frá flugvellinum og að íbúðinni okkar. Jeminn, contról jorself vúman!! Fimmtugur sköllótur með ístru og geeeðððveikan glasgow hreim.. hehehgaman að þessu.

Er semsagt í Liverpool núna og er að læra fyrir munnlegt próf í Alþjóðasamskiptakúrsinum mínum.. Veit ekki ... mér finnst alltaf eitthvað smá dónó við að segja munnlegt próf... sammála? eða er þetta bara ég?

Já ok þetta er bara ég.
Annars sef ég líka svolítið mikið út núna þessa dagana og lakkaði á mér neglurnar með rauðu lakki. Frekar fínt bara við nýja dökka hárið mitt. Mér líður miklu meira eins og konu svona dökkhærðari heldur en stelpu. Kannski líka aldurinn..

jæja allir bara hressir?
Ég er bara hress, búin að læra fullt en á fullt eftir. Svo þetta er nóg í bili, smelli kannski einni mynd í viðbót með.


oh gekk ekki.. reyni seinna.
over and out..
x sóla sól í liverliv.

Monday, September 10, 2007

Svartur fugl eftir David Harrower

jæja nú verð ég bara í þessu næstu vikurnar. Kíkið á nýja linkinn eða http://kvenfelagid.blogspot.com/ og fylgist með.

rosa gaman að vinna
rosa gaman í skólanum... skil samt ekki neitt eiginlega en hei hei. kemur.
drífa mig heim að kyssa kæró.. við megum nefnilega ekki kyssast á milli 10 og 18 því þá erum við að vinna. það þarf þá að nota tímann inn á milli... ekki satt???

enn og aftur
http://kvenfelagid.blogspot.com/

Friday, August 24, 2007

komin ut aftur



já komin út til Liverpool. Og það er gott. Er eitthvað megaþreytt eftir flugið. Svaf til 13.00 í dag og langar bara aftur upp í rúm. Rölti um og kíkti í búðir en langar ekki í neitt.. lúxusvandamál það.

Fór sem sagt út aftur til að lesa inn á IKEA auglýsingu sem á að sýna í sjónvarpi og Bíó her í the UK. massafínt. Búin að vera ótrúleg vika, ég held ég sé búin að vinna mér inn milljón á einni viku! án gríns, ef þetta gengur eftir með auglýsinguna... já svona er þetta, annaðhvort í ökkla eða eyra. Það bætir upp meðallaunin á 750 já tímann í delíinu. heheh. Fór með Einar Arnar í bæinn á gaypride og tók þessa mynd af honum. sætur eða hvað? Litli dúllin.. hann er farinn að segja Pabbi!! föðurnum til mikillar gleði. þá kann hann sem sagt tvö orð... pabbi og mamma! Duglegur. Var svo að byrja á leikskóla og verður altalandi í næsta mánuði spái ég. ...heheh heyra í mér stoltu frænkunni.

jæja spennt að sjá hvort einhver skilur eftir komment til að ég viti hvort einhver les eða ekki. Ekki búin að blogga rosa lengi!!!

já og er sem sagt að fara heim aftur í næstu viku að æfa Blackbird í hafnarfirðinum!! Allir í leikhús í haust!! over and out.

ps. ekki fallegur himinn?

Monday, July 9, 2007

gurkan og lakkið




hæ hó, skellti inn tveimur skemmtilegum myndum. Ein frá Wales þar sem við tjöldum hjónakornin og önnur úr Hafnarfjarðarleikhúsinu og leikhúsdraugabarnið sem var með mér í för hlóp fyrir framan vélina og út kom þessi skemmtilega mynd. soldið töff. Búin að vera á fullu um helgina... nei ekki á fullu, bara að mála smá og svo fór nú sunnudagurinn í sólbað. já já ekkert að ofkeyra sér, en var sem sagt á nýja óðalssetrinu á stokkseyrinni.

Sit hér og skil ekkert í mér að vera að blogga núna á mánudagsmorgni.. sit bara í stiganum klædd og er á leið í sund. Ég var samt að lakka á mér neglurnar nefnilega í gærkvöldi og það er rosa gaman að pikka á tölvuna með svona fínar rauðar neglur. Lítið er ungs manns gaman segi ég nú bara. Vona að lakkið skemmist ekki í sundinu.
over and out.

já já soldil gúrkutíð í gangi hérna. Eg er bara að bíða eftir fréttunum...
sol

Thursday, June 28, 2007

soldið slow...

Já há mín bara ekkert búin að blogga. Mér fannst eitthvað svo pointless að blaðra þegar ég var heima. Var samt voða kósí. og er svo á leiðinni heim aftur á morgun. Er búin að vera í prufu hérna og fékk recall en hef ekkert heyrt eftir það. Soldið svekkt því þetta er alveg frábært kompaní en ég fór tvisvar til London og það var fínt.

Skosk stelpa byrjuð að vinna í delíinu. Rosa fín og ég væri alveg til í að við værum vinkonur... ég er náttúrulega svo svag fyrir skoska hreimnum. .. held stundum að það sé eitthvað að mér.

Annars hlakka ég bara til að koma heim.
já náttúrulega bara búið að rigna hérna í heilan mánuð. Þrumur og eldingar. og haglél í gærkvöldi. takk fyrir kærlega min ven. grínlaust.
verð hressari næst. eins og hemmi!

xsol

Tuesday, May 22, 2007

áfram liverpoool!!! koma svo strakar!!!

Rosa leikur á morgun ha.. ég er orðin svo mikil bulla að það er bara vandræðalegt. Sem sagt heimaliði að spila í Evrópumeistarakeppninni á morgun og stemmningin er gífurleg hér.. já gífurleg!! Maley er búinn að fá miða fyrir okkur til að sitja í 1000 manna sal. The philharmonic Salnum... með stóru tjaldi og ég var orðin soldið spennt... en er að fara til London að lesa aftur inn á þessa auglýsingu og kem ekki til baka fyrr en 20. 47 lestin sem þýðir að ég missi af fyrri helmingi leiksins.. næ samt vonandi seinni hálfleik... þannig að það er það að frétta af mér.

já átti alveg yndislega afmælishelgi... þori varla að segja það fórum á pöbb.. fengum okkur ekta pöbblunch og horfðum á Man. United spila og tapa á móti Chelsie. ég veit. Glötuð!!

fór samt í klippingu áðan.. ætlaði nú varla að treysta gellunni... allir á stofunni voru undir 22 og voru með fjólublátt og svart og rautt og blátt hár og meira að segja gaurinn var svo illa farinn af overdose á brúnkukreminu að ég labbaði næstum út.. úff. Vertu hugrökk sólveig sagði ég við sjálfa mig og opnaði Marie Claire og benti á myndir af sætum módelum og kvikmyndastjörnum.. eitthvað svona sagði ég við hárgreiðslukonuna mína.. ekkert of og ekkert ... og ekkert... og ekki fjólublátt.... svo er náttúrulega málið að maður heldur að maður líti út eins og Kirsten dunst eftir klippinguna.. en maður gerir það nú ekki.. lítur bara út eins og maður sjálfur bara aðeins sætari með vel blásið hár og svona. Og það er bara gott.

annars bara hress. Sólin skín og Delívinnan er bara allt í lagi.

xx over and out.
sol

Tuesday, May 15, 2007

í frettum er þetta helst... helst ekki!!

jæja hvað er svo að frétta??? Hrefna búin að eignast aðra litla stelpu.. kíkti á myndir af vísitölufjölskyldunni og hrefna leit nú ekki út eins og nýkomin úr fæðingu.. hún lítur bara út eins og súpermódel. Og snúllan svo sæt og Arna svo sæt stóra systir ... og Geir náttúrulega líka sætur!!!

Fór til London ja, vá hvað það er langt síðan ég bloggaði síðast.. búin að fara tvisvar til London.. já fór og heimsótti Maite vinkonu mína og við fórum í leikhúsið og sáum Gísla Örn Gardarson sveifla sér um Breska Þjóðleikhúsið... fín sýning og hann bara frekar fyndinn fannst mér. Fór í yoga í London og hitti Kristínu Laufeyju og við fengum okkur lunch og hlógum soldið og svo fór ég í partý... innflutningspartý hjá vinum Maite.. og hittum tvo vini hennar á barnum áður en við fórum.. mjög gaman. Já það var alveg rosa gaman.. svo fór ég aftur núna í gær til London að lesa inn á auglýsingu fyrir ITV local... og svo er ég bara að vinna. ... soldið leiðilegt blogg. hahah. jæja þér er nær að lesa alla leið hingað!!! hefðir átt að hætta þegar geir er sætur!! er það ekki bara? eigum við kannski að láta þetta gott heita bara? held það. vá. já.

eitt ljóð í lokin? nei ég hélt ekki.

bæ.

Thursday, May 3, 2007





Fyrir framan Cunard skipafélagsbygginguna en þeir byggðu Queen Mary og Queen Elisabeth skipin sem mamma sigldi í kringum heiminn á í Jarðarförinni around the world.
Strákarnir hressir að hlaupa í gegnum gosbrunninn á torginu.
og svo var náttúrulega farið í vítasppyrnukeppni í svefnherberginu eftir hita leiksins.. ef maður ætlar að verða eins og Ronaldo þarf auðvitað að æfa sig og þá er betra að dreifa púðum og sængum um allt herbergið...


Fyrir framan Cavern Club þar sem Bítlarnir spiluðu. Paul hallar sér svalur upp að vegg og bíður eftir einhverju.. lífinu..

Wednesday, May 2, 2007

Manchester 4, Everton 2




Og þvílíkur leikur!!!! allt að verða vitlaust í goodison Park sl. Laugardag og við mamma og Bessi og Tómas í hita leiksins.. in the eye of the storm.. jesssörííí. Ekkert smá gaman... ótrúlegt að fara á svona fótboltaleik.. og svo í gærkvöldi þá horfði ég meira að segja ein á Liverpool Chelsise.. ég er á leiðinni að verða bulla held ég bara ... myndir fylgja fljótt... ef grannt er skoðað má sjá Ronaldo nr. sjö einn á vellinum.. ég var sko líka nr. 7 í bekkjarliðinu í mýró í handbolta.. og er ekki beckam núna nr. sjö? eða var áður en hann flutti til LA.

anywho... það var svo gaman að hafa mömnmu og strákana í heimsókn. Yndisstundir í sólskininu og við fórum út að borða og þeir hlupu í gegnum gosbrunn og skemmtu sér konunglega. Versluðum soldið mikið af því við eða mamma var að festa kaup á sumarhúsi á Stokkseyri og vantaði náttúrulega lök og kodda. Þannig að hún var sko alsæl þegar ég sýndi henni TKMAX búðina þar sem allt er fullt af design vörum á kostaverði... keypti á sólu sína kjól og pils. Og ný sængurföt.

Annars fannst mömmu Liverpool bara vera mjög hrein borg og var afar ánægð með húsakynni næstyngstu dóttur sinnar... þurfti sem sagt ekki að fara í sturtu í sokkunum eins og þegar sól var námsmaður í London. Þá var bara farið í sturtu í sokkunum.. Enda bjó ég í viðbjóðslegu húsi þar sem næstu nágrannar voru mýsnar í veggjunum..... já en þvílíkt sem ég var móðguð þegar mamma baðaði sig í sokkunum.. skil það svo sem vel núna en þá já þá var þetta bara heimilið mitt... svona er nú lífið.
Svo skilaði ég þeim á flugvöllinn, þurfti að bíða eftir lestinni í klukkutíma og keypti mér Independantblaðið sem var að skrifa um plöntur sem eru notaðar til að þróa lyf.. og íslenskt fyrirtæki sem notar hveitiplöntur erfðabreyttar með mennskum genum ,að mig minnir til að þróa lyf... gott að vita af því.. og fyrirtækið ræktar nota bene plönturnar úti þar sem engin hætta er á smiti þar sem hvort eð er ekkert hveiti er ræktað á landinu... ég veit ekki.. líst ekki á þetta allt saman.. sem sagt fór á hótelbarinn og fékk mér rauðvín, Jerome miðaldra skalli í appelsínugulri peysu bauð mér upp á late night snack.. nei takk ég er að fara að taka lest kæri vinur jerome... svo kom ég heim og fór að hágráta af því allt var svo tómlegt eftir að þau voru farin... já svona er lífið .. í liverpool....

Sit annars bara hérna á DR. Duncans pöbbnum mínum, og er voða glöð að vera búin að eyða bloody 6 pundum í kl. tíma internettengingu... já og á öðru rauðvínsglasi.. svona upp á stemmarann. var að panta mér far til London um helgina og hlakka rosa til.. ætla ekki að taka með mér tölvuna heldur fara í leikhús og partý og liggja í sólbaði í Hyde park... bíða eftir Villa prins.. neiiiii.. bara sólbað.. hringja í Kristínu Laufey og kannski hittast í lunch.. hún er alltaf svo fyndin.. og já.

Vona að myndasafnið komi líka með annars reyni ég aftur á morgun.
Hey pantaði líka far heim 25. maí... viku eftir afmælið mitt en er samt að pæla í að halda upp á það kannski þá helgi eða bráðum..... var sooldið að pæla í karíokí stemmara á Ölveri bara... hahah.
já ég veit rauðvínið farið að segja til sín... best að drífa sig heim í háttinn í nýju akkerislakinu sem mammsa gaf mér... Ralph Lauren lak á 7.99 pund.. TKMAX klikkar ekki sko.

xx
sol
ps. vá hvað ég tala mikið..

Tuesday, April 24, 2007

dadaraddada

Takk fyrir fallegar sumarkveðjur kæru vinir. Og gleðilegt sumar sömuleiðis. Ég er bara hress grasekkja orðin aftur og þá er ágætt að vera dugleg að vinna. Bítlaborgin alltaf jafn sjarmerandi eða hitt þó... nei æ jú maður má alveg kvarta stundum. Og stundum held ég að flest allir sem eru búa hérna séu bara hálfskrítnir... þið vitið svona Little Britain týpur! Say no more.

Gott að mamma kemur um helgina með strákana Bessa Gaut og Tómas.. segir sagan að hann Bessi Gautur frændi minn sé kominn með troðfulla tösku af peningum!! Alveg að springa af peningum. gott mál það, enda kann hann að segja sögur sá strákur. Alligevel. Og það verður nú skemmtilegt að reyna að sýna þeim góðu hliðarnar á borginni svo hún móðir mín pakki mér ekki niður í ferðatösku og selflytji mig heim. já seisei andskotinn hafi það.
Maley er sem sagt farinn til Cork á Írlandi og er bara að drekka Guinness og horfa á endurnar .. og vinna líka.
Fékk símtal í dag um að ég hefði fengið voiceover vinnu... megabucks... þá verður sko taskan mín líka troðfull af peningum sko!!! þangað til Landsbankinn fær yfirdráttinn sinn til baka sko... en þeir vilja fá mig til London á mánudag.. þegar mamma er í heimsókn....typiskt ekki satt!!

En þetta er nú ekki leiðilegt vandamál svosem... bara gott vandamál og því verður það leyst vel... ja´ja´..

ástarkveðjur til Hrefnu sem fer að fara að koma litlu kríli..nr. 2 í heiminn í vikunni.

over and out.

Tuesday, April 17, 2007

Mr. William how do you do?



Jæja... þau bara hætt saman og Villi farinn á ströndina... það getur bara þýtt eitt!.. I´m back in the game... ég hef nefnilega alltaf verið soldið svag fyrir Villa sko. Þó svo Harry sé meira mín týpa held ég... kannski ég slaufi bara mastersnáminu og verði drottning.. Bretadrottning... Sólveig Bretadrottning... já svei mér ef þetta hljómar ekki bara vel... grillveisla í Buckingham, þú og ég og Villi, Camilla, Elton John og Spice Girls!!!

Ekki spurning.

Sunday, April 15, 2007

bongo

já það er sko bara bongóblíða hérna í bítlaborginni og allir fullir alltaf... búin að vera fyllibyttuhelgi... ekki ég sko heldur öll borgin bara.
Veðreiðahelgin mikla í Aintree og allar konur labba um bæinn með hatta og fjaðrir í þvílíkum kjólum og eru bara berfættar um kl. 5 því hælarnir eru að drepa þær. Ég veðjaði á hest sem heitir slim pickings og hann lenti í 3ja sæti... svo ég vann ekkert.. var samt rosa æst að horfa á keppnina... ég held að ég gæti alveg orðið forfallin gambler... mér finnst þetta rosa gaman..


Bara búin að vera að vinna og hafa það fínt. Maley loksins kominn aftur en er samt að vinna svo mikið að hann er hálfruglaður. Skrítið þegar maður dettur svona inn í sýningu og er bara í öðrum heimi. Hann týndi veskinu sínu þarna um daginn og ákvað núna í morgun að fara að kaupa nýtt.. en fann ekkert almennilegt í tkmax búðinni okkar góðu... var kominn með svona konubuddu og ætlaði að fara að kaupa hana... gat nú bent honum á að þetta væri soldið kelló.. þá keypti hann sér gleraugu! bara venjuleg gleraugu með gleri í.. hann hélt nefnilega að þetta væru sólgleraugu af því þetta var í sólglerugarekkannum.. hélt þetta væru svona tommy hilfiger ( hann er nefnilega soldill merkjakall) sólgleraugu sem væru bara rosa kúl sólgleraugu með einhverju nýju trendí gleri sem lítur út eins og venjulegt gler..... góð saga... hahaha vá hvað þetta var leiðileg saga að skrifa.. þetta var sko miklu fyndara í morgun þegar við vorum að rölta tvö um bæinn og hlæja... æ æ æ hvað ég er fyndin.. ein voða glöð að vera búin að fá kæró aftur hahhah bloggandi einhverjar væmnar kærósögur. Glötuð týpa.

allavega, skráði mig í mastersnámið og ætla að sjá til hvert lífið leiðir mig. gústala brown ég er líka rosa mikið búin að vera að hugsa til þín og síminn minn er 00 44 7942242244 þetta er sko nýji síminn minn af því ég týndi bleika símanum mínum.. týndi líka bleiku húfunni minni sem var svo falleg, þarna tit head húfan mín... ég verð svo leið þegar ég týni hlutum.

já og glasgow var bara æði..æðisleg borg allir rosa hip og cool og skemmtilegir barir og búðir og kaffihús og bara æði. Hitti siggu og unnustann og það var æði og ég var æði og allt var æði og ég vil búa þar. Og hreimurinn æði... Skotland er bara rosalega fínn staður finnst mér. Allavega út í sólina núna.

xx
sol

Sunday, April 1, 2007

vorið er komið

Já vorið er sko komið hér held ég bara. Yndislegur dagur, vaknaði um 10.. lúrði svo aðeins lengur og las smá í The long walk to freedom.. já já ennþá að lesa hana.. hún er mjög löng. .. sofnaði og vaknaði og las meira... skellti mér svo í skokkarafötin og hljóp niður að ánni í sólskininu. Keypti svo Sunday Times og fór heim og las blaðið. Þá hringdi Candice sem á deli búðina í mig og þau voru að fara að hitta vini sína í lunch og ég fór með þeim. Við fórum á kínverskan stað við ána og ég borðaði á mig gat. Rosa góður matur og skemmtilegur félagsskapur. Fékk smá samviskubit því ég vissi af Maley í Glasgow.. hann týndi veskinu sínu á föstudagskvöldið og er gjörsamlega auralaus og matarlaus, hafði ekki efni á að kaupa sér dagblað.. og ég hress nýbúin að fá útborgað að gúffa í mig..

Fór líka í dag að kaupa mér andlitskrem... ég er nefnilega að fara í myndatöku á miðvikudag, svona leikaramynda myndatöku því það eru alveg 6 ár síðan ég tók hinar.. og heimildamenn segja mér að ég hafi aðeins breyst, elst og svona.. sem er allt í lagi.
Þannig að ég féll fyrir kremi sem heitir DNAge... Nivea hrukkukrem basically... æ ég veit ekki. En ég er svona soldið búin að vera að spá í aldur af því ég er nú að verða þrítug, alls ekki á neikvæðan hátt, bara svona að spá... og svo fattaði ég að eftir 30 ár, verð ég sextíu ára. Og þá getur maður vonandi bara slappað af og lært golf og svona, en það er svo langur tími þangað til.. alveg jafn langur og allt lífið mitt hingað til.. og maður er nú búin að gera svo sem ýmislegt á þessum þrjátíu árum, búin að vera í sex ára bekk, missa tennur, fara til Flórída með fjölskyldunni, búa í Frakklandi, Englandi og vinna í þýsku bakaríi eitt sumar, vera skotin í Halla Bergman í nokkur ár þangað til hann kom frá Svíþjóð með lokk, læra á fiðlu og pínó, vinna Íslandsmeistaratitilinn í trompfimleikum á gólfi með 9.35.. yes thank you very muchþþ, lært að synda og hjóla, eignast fullt af frændsystkinum, verða skotin í strákum, sofa hjá og gráta í fiskipallbílnum hans pabba þegar Þórlindur hætti með mér og pabbi tók í nefið og spurði hvort ég vildi ekki koma í ísbíltúr, læra leiklist og tala inn á fullt af teiknimyndum, fara á vodka og perubrjóstskykursfyllerí með Malenu og Siggu í tjaldi í Borgarfirði, klifra upp á Rjúpnafell í Þórsmörk, Esjuna og Glym, finna mann sem ég elska og sem býr til góðan mat, og ja svo er ég farin að blogga ... þannig að með nýja DNAge þá verð ég bara alveg eins og í dag eftir 30 ár bara búin að gera fullt í viðbót.

Monday, March 26, 2007

sumarvinna sumir vinna meira en sumir

tíu ára Menntaskóla reuninon í byrjun júní... og ég er enn að ákveða hvað ég á að verða þegar ég verð stór. Kíkti inn á heimasíðu kb banka í dag og var að spá í að sækja um sumarstarf.. bankinn heitir samt Kaupthing núna. Rúna er sko að fara að vinna þar í sumar og stóra systir var bara að kíkja á aðstæður. Soldið gaman af því ég gat skoðað myndir af öllum eða flestum sem vinna þar... og ímyndaði mér hvernig væri að vera bankastarfsmaður... hitti svo Hlyn vin á msn og hann fann miklu skemmtilegri sumarvinnu sem hann er að kanna núna...

Maley fór í dag til glasgow og verður næstu 3 vikurnar... en við eða hann á í vandræðum stundum með svefn á mánudögum og vaknaði hress kl. 6 í morgun sem var í alvöru 5 af því að klukkurnar fóru áfram um 1 tíma í gær. skilst þetta? núna erum við sem sagt klukkutíma á undan. Og þar sem hann vaknaði og ég heyri alltaf klingið í skeiðinni þegar hann borðar hafragraut þá vaknaði ég líka... rosa hress og við skelltum okkur bara í ræktina. Hann í sína og ég í mína... við erum sko ekki saman í leikfimi, þannig að ég er rosa þreytt núna. Og ætla að drífa mig heim í hljóðlega íbúð, fá mér góðan mat og fara snemma að sofa.

Dreyma eitthvað skemmtilegt. Eins og um daginn dreymdi mig að ég væri að fljúga í loftbelg, en ég hélt mér bara, það var engin karfa. já sem sagt soldið þreytt týpa núna...

over n out

Saturday, March 24, 2007

heimsokn

Mamma er að koma í heimsókn til mín í næsta mánuði og ætlar að taka Bessa Gaut og Tómas með.... þeir vita nú ekki af því enn en við ætlum að segja þeim í kvöld... hlakka rosa til að fá þau og þetta þýðir náttúrulega að maður þarf að skella sér á fótboltaleik með mömmu og drengina.. ekki satt.

ég er sem sagt búin að komast að því að eini leikurinn í Liverpool og nágrenni er Everton gegn man united. Skemmtilegt en verður erfitt að fá miða var mér sagt þannig að ég er búin að vera í beinu sambandi við Man united aðdáendaklúbbinn heima á íslandi og þeir eru að hjálpa mér að fá miða... sjúklega fyndið... googlaði þeim bara og fantagóð síða bara verð ég að segja. Og skjót viðibrögð.
Kæró fer til Glasgow núna á mánudag í 3 vikur að æfa og ég ætla þangað um páskana að hitta hann. Verð bara ein í kotinu á meðan og ætla að nota tímann í að experimenta með brúnkukerm og annað þvíulíkt til að fitta betur inn. nei bara djóka.

Þarf að fá mér vinnu þar sem ég geri ekki neitt spes en borgar rosa vel... any ideas.

jæja over and out...
x.

Saturday, March 17, 2007

buin að vera rosa löt að skrifa

Já ég var svo mikið að bíða eftir þér hre.

Malena og pétur komu sem sagt um daginn til að halda upp á afmæli Jökuls Orra sko..!! Rosa gaman að sjá þau. Svo skemmtileg hjón. En ég náttúrulega gleymdi myndavélinni þannig að engar myndir....

Annars er ég bara búin að vera að vinna og stússast, búið að vera svo gott veður að ég var meira að segja ekki í neinum sokkum um daginn.. svona summer stemmning.
Sem sagt ST. Patreksdagur í dag... skrúðganga... allir í bænum eru með stóra græna hatta og guinnes og fullir unglinar út um allt. Sjarmerandi as ever þessi borg. Áfram írland. Ég held ég haldi mig innandyra í kvöld.

Var að kíkja á flug fyrir mömmsu ef hún kemur í heimsókn bráðum en flugleiðir eru eitthvað að setja verðið upp. Hmm.

Maley er að fara að æfa þetta leikrit sem sagt og verður í Glasgow í 3 vikur. Þannig að ég fór nú bara að kíkja á íbúðir til sölu í Glasgow. kannski ég splæsi bara í eina og komi honum á óvart. Hann er bara heima núna að hlusta á fótboltann og marinera kjúkling. ég gaf honum ítalska uppskriftarbók í jólagjöf og hann eldar úr henni um hverja helgi. soldið sniðugt.

Var um daginn að sörfa á netinu og kíkti á allar síður hjá vinkonum mínum... hinar barnmörgu vinkonur mínar... þvílík frjósemi í gangi. Fór að sjá tvær sýningar í vikunni...en var ekkert allt of hrifin.

Enn streyma fjögra laufa álfarnir inn. Fullir unglingar ussuusuuusususs... þegar ég var unglingur byrjaði ég ekki að drekka fyrr en um 15... smyglaði inn rússnesku vodka frá þýskalandi þar sem ég hafði verið að vinna í bakaríi og drakk það heima hjá Ingu í partýi. massa hress.

sumar vinkonur mínar byrjuðu að drekka aðeins fyrr... fóru í bíó með sítrónu og tequila og filmuglös til að nota sem staup. Vantaði svo eitthvað til að skera sítrónuna og fóru í afgreiðsluna og báðu um skæri!!??? til að klippa sítrónuna...sjálfsbjargarviðleitning í lagi hjá þeim sko.. svaka dannaðar... gengur ekkert að vera unglingur á fyrsta fylliríinu og ekki hafa sítrónu með tequilanu sem var stolið frá foreldrunum... nei. Og svo voru þær með salt í poka líka.
Svo smart vinkonur mínar... eins og næstum tveggja barna mæður í dag. Sem sagt byrjuðu á undan mér að drekka og eignast börn.. ég held ég sé svona late bloomer.

En skemmtilegastar í heimi samt.

verð duglegri núna
xx
sol

Thursday, March 1, 2007

jammmog jæja

Já komin aftur og það er bara fínt. Maður fær svo mikla orku af að vera heima.. nú finnst mér ég bara geta gert allt í heiminum, kannski af því að ég var bara að slappa af í tíu daga og svona dúllast heima. Það er eins og dagarnir séu lengri á Íslandi en í Liverpool... og það er kannski af því ég vaki lengur á kvöldin heima á Íslandi. Var einmitt til klukkan fjögur um nóttina að hanga með mömmu og horfa á Óskarinn. Svo fínir kjólar!!! ha!! Svo gasalega lekkerar píur þessar ammerísku leikkonur. Gaman að þessu.

Maley var rosa glaður að sjá mig..búinn að kaupa í matinn og gera allt fínt.... en ég svona þurfti að hafa soldið fyrir honum... hann þurfti sotla athygli...ég held hann hafi saknað mín soldið. Svo er hann bara farinn til London að hitta leikara og leikkonur fyrir verk sem hann er að setja upp nú í vor.. skil nú ekkert hvað hann þarf að fara alla leið þangað þegar hann er með fullkomlega frábæra leikkonu beint fyrir framan hann allan liðlangan daginn hér í Liverpoooooollllll!!!! Verst hvað írski Cork hreimurinn minn fer mikið út í Indverskan hreim. Endar alltaf þar. Minnir mig á það...rúna verði ykkur bara að góðu með indverska matinn um daginn!! Maður býður sjálfum sér í mat og er svo bara sendur út á austurlandahraðlestina með rúllur í hárinu(já ég var sko með rúllur í hárinu!!) og þarf líka að borga. Haldiðaða sé!! En hann kemur aftur á morgun.

En mikið var samt huggulegt að koma heim og ég vildi ég gæti það bara um hverja helgi. Helgi.

Svo hitti ég hann Hannes (vinur minn í 3ja sæti í íslensku eurovision sko!!) og við fengum okkur kaffi á Leifsstöð og ég keypti mér svona baugafelara og gloss. Hitti líka hann Kjartan sem er að læra í Liverpool og við ætlum í bjór einhverntíma og ætlum að halda íslendingaeurovisionparty hér í Liverpool. Malena og Pétur eru að koma á leik um helgina þannig já það er bara allt að gerast hérna...
Keypti mér 2 kjóla í second hand búð áðan massa flottir og 17 pund, practically given.
over and out.

Thursday, February 8, 2007

home sweet home




Sko bara búin að panta miða... kem heim sextánda.. bara næsta föstudag og verð í 10 daga.

Sund og hárgreiðsla er fyrst á dagskrá.. maður er orðinn soldið of líkur gellunum hérna með aflitað og rót og svona... ekki að gera sig.


skelli hérna með jólamyndum... öndin fyrir steikingu og sörurnar í ofninum.. ég á sko ennþá í frystinum sörur, svona fyrir gesti og gangandi.. við bara þekkjum engan hérna svo það kemur enginn í heimsókn!!! er það soldið sad eller what??? já já maður orðinn sleipur í enskunni... multilingual ég...

over and out.

ps, og aukamynd af lily allen sem kíkti til okkar á gamlárs...já í sjónvarpinu... sad.

Wednesday, February 7, 2007

meira bullið

Ég ætla alltaf að vera svo framtakssöm á og gera allskonar praktík á netinu en enda bara á að googla og skoða og vesenast.

já einmitt var að skoða síðuna hennar örnu litlu hennar hre. Er nefnilega búin að vera að dreyma þig Hrefna svo mikið sl. nætur. Einhver tengsl eitthvað. Rosa gaman hjá okkur samt. Allavega, sætar myndir af Örnu. Hvenær ferðu heim segiru? hmm ég ætti kannski bara að senda þér prívat e-mail.. eða bjalla í þig? Er Dísa skvís eitthvað á leiðinni? Kannski bara um páskana.


Allavega, hvað er að frétta hér jú bara skiðsæmilegt, hitti Íslenska stelpu í gær, tattúgaurinn sem er með stofu rétt hjá vinnunni minni kom með hana í heimsókn til mín af því ég hafði verið svo spennt að vita að íslensk stelpa væri að fara að fá sér tattú hjá honum. Hún heitir Guðný og við ætlum að fá okkur kaffi bráðum. Gaman að því.

Svo er valentínusardagur nk. miðvikudag.. en mér er alveg sama um það af því ég held ekki upp á valentínusardaginn... bara Valdís Gunnars á bylgunni og kaupmenn sem eru að reyna að pranga upp á mann rósum og súkkulaði.

Desperate houswifes eru í kvöld.. ég er búin svona smá að koma Maley inn í þættina.. honum finnst bree skemmtilegust... situr þarna og hlær og þegar ég lít á hann þá þykist hann samt ekki vera að fylgjast með. En ég veit að hann er alveg hooked!!!

Áttum notó helgi og bara hress.

xx sol

Wednesday, January 31, 2007

Brrr iskalt a spani maður!!!






Og ég sem tók bara með mér kjóla, léttan jakka og svona... gat ekki ákveðið hvort ég átti að taka rauðu sandalana eða gulu skóna mína.. báðir álíka sumarlegir þannig ég tók bara báða!!! voru samt notaðir... á leiðinni í morgunmatinn en ekkert úti því það snjóaði takk fyrir daginn sem ég kom, svo á laugardaginum var líka kalt en samt sól og fínt og við fórum og skoðuðm La Alahambra sem er gömul höll uppi á hæðinni, yndislegt útsýni og ótrúleg bygging.

á sunnudeginum fórum við niður að ströndinni og massa rok en samt alveg svona 14 stiga hiti. Svo á mánudeginum rigndi bara allan daginn þannig við fórum í Arabísk böð og fengum nudd og svona huggulegheit.

Sem betur fer var Maite með hlýja peysu til að lána mér. Annars hefði ég bara orðið úti þarna á spáni. Takið eftir Graffiti myndunum.. mér fannst þær svo flottar. út um allt.

Það er rosalega fallegt samt í Granda og ég mæli eindregið með ferð þangað fyrir hvern sem er. Góður matur og góð sangria. Og þegar maður fer yfir götuna þá labbar græni kallinn... bara svona venjulega og fyrir ofan eru sekúndur.. hvað þú hefur langan tíma til að fara yfir götuna. Svo þegar svona 7 sek eru eftir byrjar hann að hlaupa... mér fannst þetta svo hrikalega fyndið að ég tók video af þessu og ætla að reyna að setja á heimasíðuna en þangað til verða myndirnar bara að duga.

Hvað meira? jú við fórum og sáum flamengo dansara og söngvara... rosa flott og svo mikil innlifun... myndi samt ekki einhvern veginn virka t.d. hjá bretum eða okkur íslendingum að syngja með svona mikilli innlifun um tunglið og ástina.... la luna la amore... ég skil smá spænsku sko!!

Og alls staðar appelsínutré. ég er svo hrifin af Appelsínutrjám og berjatrjám. Tók fullt af myndum af appelsínutrjánum... og hugsaði með mér ja þetta er hvergi heima... við erum meira svona kartöflur og skottís þjóð. Og ákvað með mér að læra flamengo.

Kvarthornið!!!
Já sem sagt kvarthornið að þessu sinni yfir flugi... Djöf vesen er það að geta ekki bara ferðast með þann vökva sem maður vill ferðast með.. hvers vegna þurfti nú að skemma það fyrir okkur venjulegum ferðalöngum að geta ekki keypt t.d. ólífuolíu og farið með heim.. eða ferðast með sjampó.. maður á kannski stóran brúsa og vill ekki kaupa aðra tegund. Nei nei búum til sprengju úr vökva og skemmum fyrir öllum! Og annað, sat við hliðina á stelpu á leiðinni heim og það var svo vond lykt af henni, hún notar greinilega ekki sjampó, kannski var það tekið af henni og hún neitar að kaupa nýtt...??? nei hún var svona hippatýpa... söng voða mikið og svona stemmning.

Og svo finnst mér að það eigi að klappa fyrir flugmönnum þegar þeir lenda vélinni..svona takk fyrir að ég er lifandi klapp .... það hefði getað farið illa en gekk.

og einnig að lokum þá finnst mér líka skemmtilegt þegar flugfreyjurnar sýna manni neyðarútgangana og hvernig á að blása upp vestið og svona.. þegar þær gera það í persónu þó svo Þórunn lár sé rosa sæt í flugleiðavélunum. Mér finnst hitt bara svona persónulegra eitthvað.. vitiði hvað ég meina.

Heimþrá 6,5 á skalanum einn til tíu. Æ svona sjö kannski meira....

Wednesday, January 24, 2007

massa stutt herna

er a bokasafninu og er ad renna ut a tima, aetladi ad gera svo margt a netinu en komst bara ekkert afram af thvi eg var ad skoda og hangsa... hlakka rosa til ad fara til granada... aetla ad kaupa olivuoliu og svona girno gummuladi eitthvad.

Ma fara med krem i flugvel nuna? Og Tannkrem og svona.. ah who cares.

over and out.
x
s

Thursday, January 18, 2007

sol og bliða...allt i einu

Jæja hvað er að frétta þá? Bara allt fínt. Það er svo mikið rok úti að ég fauk alla leið uppeftir í vinnuna hans Maleys og fauk svo aftur til baka, hingað á kaffihúsið.

Vaknaði í morgun við símafjandann kl. 7.. hafði gleymt að slökkva á vekjaraklukkunni.. er nefnilega búin að fá nýja vinnu í svona delicatessen búð og er að vinna frá 8 til 2 eða 4. Mjög huggó búð með veitingastað uppi og fullt af girnó ostum og mat og svona, svolítið hættulegt þar sem ég þekkt fyrir ást á mat. Þegar ég sagði Maley frá vinnutímanum sprakk hann úr hlátri, hann veit að ég er meiri svona B týpa.. eða C týpa jafnvel. Og á það til að vara skapvond svona snemma. en þetta hefur bara gengið vel so far so good. Skemmtilegur vinnustaður, skemmtilegt fólk góð súpa og gott kaffi.

Allavega í morgun sá ég að maite hafði sent mér sms í gærkvöldi og sagt I have a very important question to ask you... hún er sko hálf þýsk og hálfur spánverji og þegar hún sendir svona skilaboð, stutt og skorinort þá er það þýska hliðin á henni.

Svo hringdi hún í morgun og sagði að þetta væri nú ekkert svona líf og dauða spursmál en hún hafði gefið kærastanum sínum ferð til Granada í jólagjöf, leigt bíl, bókað hótel m. morgunmat og svona æði huggó löng helgi, en hann er frá suður ameríku og fær ekki visa til að fara um helgina, tekur þrjár vikur, þannig hún bauð mér að koma með, ég þurfti bara að bóka flug sem ég og gerði bara og fer sem sagt á föstudag næstu viku til mánudagskvölds.
Rosa leiðilegt fyrir kærastann, en rosa gaman fyrir mig.. það er víst 18 til 20 stiga hiti.. og það er akkúrat það sem ég þarf.

Annars var víst saumaklúbbur og gæsun svona smá í gærkvöldi því arna er að fara að giftast Gunnari sínum á Laugardaginn og ég sendi þeim mínar bestu og innilegustu hamingjuóskir og veit að þau eiga bjarta framtíð fyrir höndum enda bæði fyrirmyndarfólk. Svona á að gera þetta.

Er í fríi á morgun og skrifa þá meira.
xx
sol

Thursday, January 11, 2007

zzzzzzzzzz

Vá svaf til kl. 12 í dag. Maley sagði við mig þegar hann var að fara sofðu bara það er svo vont veður úti... og ég tók hann bara á orðinu. Svaf og svaf og svaf. jeminn hvað það er gott stundum.
fór svo loksins út úr húsi eftir kjarngóðan hafragraut með eplum og kaffibolla og það var svona smá vindur jú en fínt bara.

og ég gæti alveg bara sofnað aftur. ég held ég leggist í hýði einu sinni á ári í svona mánuð og hef ekki gert það núna soldið lengi.

fór í ræktina í gær í virtual spinning tíma... bjóst bara við svona venjulegum spinning tíma en þá er skjár fyrir framan mann, enginn kennari heldur bara tölvukona og þú sérð hvert þú hjólar í gerviheiminum á skjánum.. upp hæðir, framhjá kastala og gegnum borgina og svona... spes... veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta en var samt alveg gaman að prófa sko. Er að borða ljúffenga súpu.

fór og sá apocalypto í gær... mjög góð fannst mér. og kláraði aðra bók eftir margret atwood cats eye og ætla núna að byrja á nelson mandela long walk to freedom. Hún er soldið löng enda heitir hún long walk en ég skal fjalla um hana seinna.

já ég held það bara janúar kúra kerti hafragrautur súpa bíó kaffi og svo má stundum kaupa sér kjóla á útsölu.

og hér kemur líka hrefnupistill dagsins, mig dreymdi að hún og geir væru skilin og ég vissi samt ekki af hverju en Hrefna var svo lukkulega ánægð með þetta var að fara að breyta öllu í lífinu sínu og var já bara svona hress með þetta allt saman. Ég var alltaf að reyna að ná henni í einrúmi til að spyrja hvað hefði gerst en hún var svo upptekinn.. með nýja lífið að hún hafði engan tíma til að tala. Og ég var svo glöð þegar ég loksins vaknaði og fattaði að þetta var bara draumur. ég bar get ekki hugsað mér ykkur ekki saman..

xx sol

Thursday, January 4, 2007

Gleðilegt ar og takk fyrir gomlu

Jah svona var það þá.

Góð áramót, Kampavín og lamb.
Fórum svo á fótboltaleik á nýársdag og ég fékk mér bjór og franskar í hálfleik. Tramway Rovers gegn einhverju liði sem ég man ekki hvað heitir en við unnum 2.1.

horfði á Desperate Housewifes í gær. Tvöfaldur þáttur. Þær eru svo skemmtilegar og þægilegt að horfa á. Stór skál af poppkorni og vínber og pínulítið af Haagendas ís, praline og cream. Það er án efa besti ísinn í heimi.

Fékk jólakort frá Orra Páli sem gladdi mig svo mikið.

Takk fyrir það.

sólin skín og skýin þjóta yfir. Og ég er að þjóta í bókabúðina mína.

xx